Hlutverk Prófanefndar tónlistarskóla er að annast samræmt og hlutlaust mat á áfangaprófum í tónlistarskólum í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla

Skráning í próf Leiðbeiningar

Áfangapróf í hljóðfæraleik og einsöng

Áfangapróf eru skipulögð í samvinnu við viðkomandi tónlistarskóla. Próf geta farið fram hvenær skólaárs sem er að því tilskildu að hæfur prófdómari fáist til starfa. Leitast er við að verða við beiðnum skóla um prófdaga, eftir því sem frekast er kostur, en þar sem lögð er áhersla á það við skipulagningu áfangaprófa að nýta starfskrafta prófdómara sem best, verður stundum að tengja saman próf í fleiri en einum skóla ef um mjög fá próf er að ræða. Þó er miðað við að nemendur þreyti áfangapróf í sínum skólum nema samkomulag verði um annað.

Prófverkefni

Að neðan má nálgast yfirlit um prófþætti í áfangaprófum í einstökum greinum, bæði í klassískri tónlist og í rytmískri tónlist. Þar er m.a. að finna dæmi um prófverkefni, valin úr þekktum tón- eða söngbókmenntum. Einnig eru þar sérstakar upplýsingar um prófkröfur í óundirbúnum nótnalestri á grunn- og miðprófum í klassískri tónlist (þó ekki ásláttarhljóðfæri, harpa, orgel og harmonika).

Nánari upplýsingar um verkefni og prófkröfur á áfangaprófum er að finna í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla og viðkomandi greinanámskrám.

Ábyrgð á prófverkefnum

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla bera kennarar ábyrgð á því að prófverkefni nemenda séu í samræmi við kröfur námskrár. Prófanefnd fer ekki yfir þau prófverkefni sem tilgreind eru á prófbeiðnum nema þess sé sérstaklega óskað.

Miðpróf tónfræðagreina vorið 2024

Samræmt miðpróf í tónfræðagreinum vorið 2024 verður haldið þriðjudaginn 19. mars 2024 og fimmtudaginn 21. mars 2024. Tilkynna þarf um nöfn próftaka til Prófanefndar eigi síðar en miðvikudaginn 1. mars 2024 á þar til gerðu eyðublaði sem er að finna hér.

Eins og mælt er fyrir um í Aðalnámskrá tónlistarskóla: Tónfræðagreinar (2005) verður prófið þrískipt, þ.e. munnlegt tónheyrnarpróf (20%), skriflegt próf (60%) og valverkefni (20%). Fjallað er nánar um hvern þessara prófþátta hér á vefnum, próf- og matsaðferðum lýst eins vel og kostur er, auk þess sem birt er sýniseintak af skriflega prófinu ásamt tóndæmum og fyrirmælum.

Prófgjöld

Tónlistarskólar greiða Prófanefnd prófgjald vegna hvers áfangaprófs. Þó er sérstakt gjald innheimt vegna tónleika á framhaldsprófi.

Prófgjöld haustið 2023 eru sem hér segir:

  • Grunnpróf: 11.600 kr.
  • Miðpróf: 17.300 kr.
  • Framhaldspróf: 22.400 kr.
  • Framhaldsprófstónleikar: 37.400 kr.
  • Miðpróf tónfræðagreina: 6.500 kr.

Prófgjaldið er jafnhá fjárhæð vegna allra tónlistarskóla. Prófanefnd greiðir allan kostnað vegna prófdómara, þar á meðal ferðakostnað þegar við á.

Samkvæmt samþykkt fulltrúaráðsfundar Prófanefndar skal almennt innheimta prófgjald vegna áfangaprófa sem hætt er við með minna en 14 daga fyrirvara. Einnig hefur fulltrúaráð Prófanefndar ákveðið að tónlistarskólar, sem óska eftir prófdómara til að meta stök grunn- eða miðpróf, án þess að fallast á tilmæli Prófanefndar um að tengja þau öðrum prófum, skuli greiða þann umframkostnað sem til fellur.