K L A S S Í S K   T Ó N L I S T

Prófþættir í klassískri tónlist

Orgel

Grunnpróf

Ekki er gert ráð fyrir að nemendur stundi grunnnám í orgelleik, enda er gert ráð fyrir að nemendur séu komnir áleiðis i miðnámi í píanóleik áður en nám í orgelleik hefst.

Miðpróf

Á miðprófi í orgelleik skal nemendi leika þrjú verk og eina pedalæfingu. Aðrir prófþættir eru tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur, auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Miða skal við að heildarpróftími á miðprófi í orgelleik fari ekki fram yfir 45 mínútur. Á prófinu skal nemandi að minnsta kosti flytja eitt verk utanbókar samkvæmt prófþætti 1 eða æfingu samkvæmt prófþætti 2.

Prófþættir eru þessir:

  • Þrjú ólík verk (15 einingar hvert) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Æfing (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Tónstigar og hljómar (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Val (10 einingar). Nemandi velji eitt eftirtalinna viðfangsefna:
    1. Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni.
    2. Spinni einradda út frá gefnu upphafi, hljómferli eða lagi með eða án undirleiks.
    3. Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu.
    4. Hljómsetji stutta laglínu óundirbúið.
  • Óundirbúinn nótnalestur (10 einingar).
  • Heildarsvipur (5 einingar).
   Dæmi um prófverkefni á miðprófi

Í námskrá eru gefin eftirfarandi dæmi um prófverkefni á miðprófi. Dæmunum er ætlað að skilgreina þyngdarstig prófsins. Fullt eins má þó velja önnur verkefni af sambærilegri þyngd. Gert er ráð fyrir að nemendur leiki tónverk með pedal en heimilt er þó að leika eitt verk án pedals.

Dæmi um tónverk með pedal

  • J. S. Bach: Ich ruf zu dir herr Jesu Christ, BWV 639 – Úr: Orgelbüchlein [Urtext]
  • Bach / Krebs: Prelúdía og fúga í C-dúr, nr. 1 – Úr: Átta litlum prelúdíum og fúgum [Urtext]
  • M. Reger: Ach bleib mit deiner Gnade – Úr: 30 kleine Choralvorspiele op. 135a, nr. 1
  • M. Dupré: Sálmforleikur nr. 41, In dulci jubilo – Úr: 79 Chorals for the Organ op. 28
  • J. Alain: Choral dorienne
  • Jón Þórarinsson: Sálmforleikur „Jesú, mín morgunstjarna“ – Úr: Íslensk orgelverk

Dæmi um tónverk án pedals

  • L. N. Clérambault: Basse de cromorne – Úr: Suite de deuxième ton
  • J. G. Walther: Fyrstu þrjú tilbrigðin úr partítunni „Jesu meine Freude“

Dæmi um pedalæfingar

  • A. F. Hesse: Æfing – Úr: Haukur Guðlaugsson: Kennslubók í organleik, 1. hefti, bls. 72
  • Æfing nr. 13 – Úr: Germani; Metodo per organo, 1. hefti
Framhaldspróf

Á framhaldsprófi í orgelleik skal nemandi leika þrjú verk og eina pedalæfingu. Aðrir prófþættir eru tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur, auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Miða skal við að heildarpróftími á framhaldsprófi í orgelleik fari ekki fram yfir 60 mínútur. Á prófinu skal nemandi að minnsta kosti flytja eitt verk utanbókar samkvæmt prófþætti 1 eða æfingu samkvæmt prófþætti 2.

Prófþættir eru þessir:

  • Þrjú ólík verk (15 einingar hvert) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Æfing (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Tónstigar og hljómar (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Val (10 einingar). Nemandi velji eitt eftirtalinna viðfangsefna:
    1. Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni.
    2. Leiki samleiksverk þar sem hann gegnir veigamiklu hlutverki.
  • Óundirbúinn nótnalestur (10 einingar).
  • Heildarsvipur (5 einingar)
   Dæmi um prófverkefni á framhaldsprófi

Í námskrá eru gefin eftirfarandi dæmi um prófverkefni á framhaldsprófi. Dæmunum er ætlað að skilgreina þyngdarstig prófsins. Fullt eins má velja önnur verkefni af sambærilegri þyngd.

Dæmi um tónverk

  • D. Buxtehude: Praeludium í F-dúr BuxW 145
  • J. S. Bach: Vom Himmel kam der Engel Schaar, BWV 607 – Úr: Orgelbüchlein
  • J. S. Bach: Piece d’orgue, BWV 572
  • C. Franck: Prelude, fugue et variations op. 18
  • O. Messiaen: La Vierge et l’enfant – Úr: La Nativité du Seigneur
  • Þorkell Sigurbjörnsson: Snertur (I, IV og V)

Dæmi um æfingar

  • D. Buxtehude: Taktar 1–20 úr Praeludium í C-dúr, BuxW 137
  • F. Germani: Æfing nr. 15 Úr: Metodo per organo, 1. hefti
Tónleikar

Að loknu framhaldsprófi í orgelleik skal nemandi leika 30-60 mínútna langa efnisskrá á tónleikum innan eða utan skólans. Fyrir frammistöðu á tónleikunum er gefin umsögn en ekki einkunn. Ekki er nauðsynlegt að halda tónleikana á sama skólaári og hljóðfæraprófið fer fram. Séu prófið og tónleikarnir haldnir á sama skólaári er heimilt að nota alla efnisskrá prófsins á tónleikunum. Fari tónleikar fram síðar skal að minnsta kosti helmingur efnisskrárinnar endurnýjaður. Gæta þarf þess að efnisskrá sé fjölbreytt og vel saman sett.