A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 16, 15. október 2007

Hinn 15. okóber 2007 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, sem barst 18. júní 2007, hefur skólastjóri tónlistarskólans T ásamt kennara við skólann kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 23. maí 2007. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 23. maí 2007 þreytti A grunnpróf í píanóleik við tónlistarskólann T Samkvæmt niðurstöðu prófdómara og ákvörðun Prófanefndar var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni      Umsögn  Einingar




Tónverk I Allgóð tilfinning fyrir stíl, greinilegar styrkleikabreytingar. 13




Tónverk II Viðeigandi hraði og festa. 11




Tónverk III Nokkuð góð tilfinning fyrir stíl og blæ. 11




Æfing  Allgott tæknilegt öryggi. 13




Tónstigar og hljómar Allgott flæði - vel undirbúið. 12




Val (leikið eftir eyra) Góð tilfinning fyrir hryn - sannfærandi flutningur. 9




Óundirbúinn nótnalestur Oftast réttar nótur og hrynur. 8




Heildarsvipur  Vel undirbúið próf. 4




Frádráttur þar sem hvoki tónverk né æfing var leikin utanbókar í samræmi við námskrá - 7




Einkunn  Stóðst grunnpróf í píanóleik 7,4




III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla lýsa kærendur vonbrigðum sínum með þær einkunnir sem nemendur tónlistarskólans T, þar á meðal A, fengu við próftöku 22. maí 2007, enda telji kærendur að einkunnagjöf í viðkomandi prófum sé of lág. Í þessu sambandi er tekið fram að það sé tilfinning kærenda að prófdómari hafi tekið mið af tempói við einkunnagjöf, þ.e. því meira tempó þeim mun hærri einkunn.

A hafi leikið tónstigana fullkomlega rétt að frátöldum smá mistökum í einum tónstiga. Hún hafi verið reiðubúin til að leika mun erfiðari tónstiga en svari til grunnnáms. Skólastjóri hafi spurt Prófanefnd í tölvupósti hvort heimilt væri að flytja erfiðari tónstiga, en ekki fengið svar. A hafi því flutt tónstiga á í samræmi við kröfur námskrár um flutning tónstiga og hljóma á grunnprófi og leikið þá alla rétt og í góðum hraða og rytma. Þrátt fyrir það hafi hún aðeins fengið 12 einingar. Að mati kærenda hafi hún verðskuldað 15 einingar og a.m.k. 14 vegna umræddra mistaka.

Kærendur taka fram að A hafi flutt öll tónverk og æfingu "absolutely perfect, not a single wrong tone", svo sem nánar er gerð grein fyrir með tilliti til einstakra prófverkefna.

Þá gera kærendur athugasemdir við framkvæmd prófsins. Í fyrsta lagi er fundið að því að Prófanefnd hafi ekki leiðbeint skólanum um það að skylt væri að leika eitt tónverk eða æfingu utanbókar. Í þessu sambandi er bent á að ekki hafi verið tekið fram um það í prófbeiðni vegna umræddra nemenda hvaða verk eða æfing yrði leikið utanbókar og lýst þeirri skoðun að rétt hefði verið að Prófanefnd gerði athugasemd við prófbeiðnina að þessu leyti áður en prófið fór fram. Í síðasta lagi hefði prófdómari átt að spyrja við upphaf prófsins hvaða verk yrði leikið utanbókar. Tekið er fram að kærendur séu ekki Íslendingar og skilji ekki íslensku fullkomlega. Kærendur hafi kynnt sér námskrá fyrir hljómborðshljóðfæri og þar komi einungis fram að nemendur eigi að leika fjögur verk, tónstiga o.s.frv., en ekkert sé tekið fram um að eitt verk skuli leikið utanbókar. Sé óheppilegt að þetta vanti í námskrána. Kærendur hafi einnig lesið almennan hluta námskrár, en skilið orðið "skal" þannig að nemandi gæti valið að leika eitt verkanna utanbókar. Ef hér hefði verið annað orð, t.d. "þarf", hefðu kærendur skilið það undireins. Er þess krafist að frádráttur sjö eininga í vitnisburðarblaði verði felldur niður, enda hafi A verið tilbúin til að leika eitt verk utanbókar, en hafi ekki gert það einungis vegna umrædds misskilnings á gildandi reglum.

Í öðru lagi gera kærendur þá athugasemd við seinkun sem orðið hafi á því að prófin hæfust. Fyrsta prófið hafi átt að hefjast kl. 13:15 og allt verið til reiðu af hálfu skólans og nemenda, en kl. 13:10 hafi einhver tilkynnt í síma að prófdómara myndi seinka um tvær klukkustundir vegna þess að hann hefði misst af flugvél. Upplýsingar um þetta hefðu átt að berast um kl. 11:00, strax eftir að ljóst varð um atvikið. Nemendurnir hafi því neyðst til að fara heim og byrja undirbúning sinn aftur. Allir atvinnutónlistarmenn viti hversu mikilvægt sé að tímasetningar standist þegar þeir komi fram og að truflun á tímasetningu geti haft áhrif á frammistöðu á prófi. Fara kærendur fram á að fimm til tíu einingum verði bætt við niðurstöðu prófdómara til að bæta þetta upp.

Loks gera kærendur þá athugasemd við framkvæmd prófsins að þau séu ekki sátt við það að prófdómari hafi nýtt tímann til að lesa og skrifa hjá sér meðan á flutningi prófverkefna stóð. "According to our opinion, she missed too much very fine moments in the students´ performances because of filling out the papers", svo sem segir í kærunni. Engar sérstakar kröfur eru gerðar í kærunni vegna þessa atriðis.

IV.

Í greinargerð P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 21. júní 2007, segir:

"Mig langar til að skýra vissa þætti í kærunni og ætla því að rekja hrakfarir mínar þennan dag. Ég átti farseðil til K kl. 11.15 en þegar ég kom á flugvöllinn nokkuð sein, þar sem ég hafði tafist í vinnu minni, var búið að selja flugmiðann einhverjum öðrum og vélin yfirfull. Ég bað eins og ég gat hvort ég gæti ekki komist með og bauðst til að sitja á klósettinu, en við það var ekki komandi. Næsta vél var kl. 13.15 og hún var líka yfirfull enda hvítasunna framundan og margir á faraldsfæti.

Ég hafði samband við L og sagði þeim hvernig mál stæðu og svo settist ég og beið og fór á 10 mín. fresti til að væla um pláss í 13.15 vélinni sem ég loks fékk, hafði verið sett nr. 1 á biðlista. Mér var hins vegar tjáð að ég ætti ekki víst flug til baka, síðasta vél væri yfirbókuð, langur biðlisti og lítil von. Ég ákvað samt að fara og keyra þá á bílaleigubíl í bæinn ef ég fengi ekki flug. Þegar ég var komin með öruggt flug norður hringdi ég í T og L og sagði þeim hvernig staðan væri og mér myndi seinka. Voru engar athugasemdir gerðar við það.

Þegar ég var lent á K beið mín bílaleigubíll og ég ók af stað, hraðinn á mér var slíkur að ég hefði misst ökuleyfið í langan tíma ef ég hefði mætt lögreglubíl.

Mín hugsun var sú að þessir nemendur væru tilbúnir að taka sitt próf og það gæti ekki skipt sköpum hvort það væri 1 eða 2 klst. seinna, hins vegar óþægilegt að þurfa að fresta fram yfir hvítasunnu og þess vegna lagði ég á mig allt þetta. Þess skal getið að þegar ég kom svo til baka til K fékk ég flug með síðustu vél svo ég þurfti ekki að keyra í bæinn.

Þegar ég kom að T var mín beðið og það var boðið upp á kaffi sem ég þáði ekki, til að spara tíma. Allir voru mjög glaðir og elskulegir og ég gat ekki merkt neina kergju út af þessari seinkunn minni. Ef nemendur hefðu verið vansælir var auðvitað ekkert mál að fresta prófinu og ég hefði haldið áfram til L. En ekkert slíkt var nefnt og allir mjög brosandi og vingjarnlegir.

Að mínu mati voru þetta góðir nemendur eins og sjá má af einkunn þeirri sem ég gaf þeim, og ég lét það í ljósi við skólastjóra og kennara þegar ég kvaddi.
Af hverju þau hafa ekki skilið að 2 nemendur ættu að spila utanað þar sem rétt er merkt við einn, þann besta, er mér ekki alveg ljóst.

Ég var hissa á því að svona góðir nemendur skyldu ekki spila utanað og nefndi það við annan nemandann hvort hann spilaði ekkert verk utanað en hann kvað nei við því. Ég leit svo á að það væri ekki í mínum verkahring að fara að rökræða slíkt við kennara í miðju prófi, og gerði því athugasemd á prófblaði eins og ég álít að fyrir sé lagt.

Dylgjum um hæfni mína sem prófdómara vísa ég algjörlega á bug, ég hef hlustað á marga nemendur víðsvegar um land og ég tel einkunnagjöf mína að þessu sinni vera í samræmi við það sem ég hef gefið annars staðar. Þá finnast mér mjög ósmekklegar aðdróttanir um að ég hafi verið að útfylla prófgögn á meðan á prófi stóð. Ég vinn ekki þannig. Ég geng aldrei frá prófum samdægurs og ekki fyrr en ég er komin í ró og aðeins fjarlægð hvort sem það er nú kostur eða galli. Hins vegar skrifa ég hjá mér minnispunkta í öllum prófum.

Ég er eiginlega mjög slegin yfir þessu máli, hlutir fóru úrskeiðis, ég gerði mitt besta og meira til svo að nemendur gætu tekið sín próf á þessum degi, enginn kvartaði fyrr en einkunnir berast, sem að mati þeirra á T eru ekki nógu háar. Þetta voru síðustu prófin sem ég dæmdi á þessu vori svo ekki er hægt að kenna um æfingaleysi og ég stend við þær einkunnir sem ég gaf og lít svo á að þær séu fyllilega í samræmi við þær einkunnir sem ég gaf annars staðar."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í kæru kærenda er einkunnagjöf prófdómara á áfangaprófi A, sem fram fór 22. maí 2007, mótmælt með tilliti til nánast allra prófverkefna og kemur fram það álit kærenda að próftakinn hafi verðskuldað hæstu einkunn eða nánast hæstu einkunn (15 eða 14 einingar) fyrir flest verkefnin.

Kæra í máli þessu gefur tilefni til að taka fram að viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum er mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Þjálfun prófdómara á vegum Prófanefndar tónlistarskóla beinist sérstaklega að þessum atriðum og til að auka áreiðanleika og samræmi í mati á tónlistarflutningi hefur Prófanefnd samið viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum í hljóðfæraleik og einsöng sem prófdómurum á vegum nefndarinnar er ætlað að nota við mat á frammistöðu nemenda. Þrátt fyrir eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk Prófanefndar tónlistarskóla samkvæmt skipulagsskrá ræðst einkunnagjöf hverju sinni af heildstæðu mati prófdómara á frammistöðu próftaka við flutning viðkomandi prófþáttar. Því verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til Prófanefndar, svo sem tekið er fram í 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd, nema greinilegt ósamræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar.

Í kærunni er því ekki haldið fram að misræmi sé á milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar, hvorki almennt né varðandi einstaka prófþætti. Þrátt fyrir það hefur Prófanefnd athugað umsagnir prófdómara á grunnprófi A með tilliti til einkunnagjafar og borið saman við gildandi viðmiðunarreglur nefndarinnar. Finna má að því að umsagnir prófdómara eru í sumum tilvikum ekki svo ítarlegar sem ætlast verður til í ljósi þeirrar reglu aðalnámskrár að bæði skuli koma fram í umsögn hvað vel var gert og hvað betur hefði mátt fara. Hins vegar fær nefndin ekki séð að í neinum prófþætti sé slíkt ósamræmi á milli umsagnar og einkunnagjafar (eininga) að til álita komi að breyta einkunnagjöf af þeim sökum.

3.

Athugasemdir kærenda við framkvæmd prófsins eru þríþættar og er því í fyrsta lagi mótmælt að einingar hafi verið dregnar af próftaka vegna þess að hún hafi ekki leikið neitt tónverk eða æfingu utanbókar, enda hafi verið um misskilning að ræða sem öðrum þræði eigi rætur að rekja til þess að skólastjóri og kennari séu ekki Íslendingar og hafi misskilið reglur námskrár, en Prófanefnd hafi ekki gætt þess að leiðbeina skólanum um þessa reglu þótt ekkert verk hafi verið tilgreint sem utanbókarverkefni í prófbeiðni.

Ekki er fallist á það með kærendum að Prófanefnd hafi vanrækt að leiðbeina tónlistarskólanum um það að próftakar skuli flytja eitt tónverk eða æfingu utanbókar á áfangaprófi eða að rétt hefði verið að leita sérstakra skýringa á því að ekki var tekið fram í prófbeiðni hvaða verk skyldi flutt utanbókar. Tekið skal fram að á prófbeiðni vegna eins þeirra þriggja nemenda, sem vikið er að í kæru, var ritað "Ekki ákveðið" í reit þar sem tilgreina átti utanbókarverk. Nokkur dæmi eru um það að ekki hafi legið fyrir af hálfu próftaka eða tónlistarskóla hvaða verk skyldi flutt utanbókar á prófi þegar prófbeiðni er send Prófanefnd og var umrædd áritun skilin þannig að sú væri raunin í því tilviki sem hér um ræðir.

Þótt telja verði að regla aðalnámskrár tónlistarskóla um flutning eins verkefnis utanbókar á áfangaprófi verði vart misskilin á þann hátt sem kærendur halda fram þykir rétt að taka tillit til þess að umrædd þrjú áfangapróf, sem dæmd voru við tónlistarskólann T síðastliðið vor, voru fyrstu áfangaprófin frá þeim skóla. Í ljósi þess að væntanlega er um byrjunarörðugleika að ræða í nýju kerfi og að önnur prófverkefni viðkomandi nemanda eru í samræmi við kröfur aðalnámskrár hefur Prófanefnd tónlistarskóla ákveðið að fella niður frádrátt sjö eininga á áfangaprófi A. Væntir nefndin þess að í framtíðinni gæti skólinn að þeirri reglu aðalnámskrár tónlistarskóla sem hér um ræðir.

4.

Í öðru lagi gera kærendur þá athugasemd við framkvæmd áfangaprófs m.a. A að seinkun sem varð á því að prófin hæfust, sem kærendur telja að hafi verið á ábyrgð prófdómara, hafi haft áhrif á frammistöðu próftaka og fara fram á að af þessum sökum verði fimm til tíu einingum bætt við niðurstöðu prófdómara.

Rétt er að fram komi að Prófanefnd tónlistarskóla pantaði og greiddi fyrirfram flugfar prófdómara til K m.a. vegna prófa við tónlistarskólann T 22. maí sl. Verður prófdómara ekki kennt um það að flugfélag hafi yfirbókað í viðkomandi flug og tvíselt farseðla. Þá verður að taka undir það með prófdómara að rétt hefði verið að upplýsingar um vanlíðan próftaka vegna seinkunar prófins kæmu fram þegar í stað. Einnig er óhjákvæmilegt að benda á að rökstuðningur kærenda og krafa vegna þessa kæruatriðis fær illa samrýmst því áliti kærenda, sem fram kemur í kærunni, að flutningur verkefna A á grunnprófi hennar hafi verið með þeim hætti að ekki yrði betur gert.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að annmarkar hafi verið á framkvæmd áfangaprófs A sem geti leitt til þess að breyta beri mati prófdómara eða gera athugasemdir varðandi framkvæmd prófsins.

5.

Loks finna kærendur að því að prófdómari hafi nýtt tímann til að lesa og skrifa hjá sér meðan á flutningi prófverkefna stóð og því kunni viss atriði í flutningi próftaka að hafa farið fram hjá prófdómaranum. Engar sérstakar kröfur eru gerðar í kærunni vegna þessa atriðis. Að því athuguðu og í ljósi skýringa prófdómara þykir ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt kærunnar.

Úrskurðarorð:

Frádráttur sjö eininga á grunnprófi A, þar sem hvorki tónverk né æfing var leikin utanbókar, fellur niður. Að öðru leyti stendur einkunnagjöf á grunnprófi A óhögguð án athugasemda.