A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 9, 13. október 2006

Hinn 13. okóber 2006 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 25. maí 2006, hafa X, skólastjóri tónlistarskólans T, og Y, söngkennari við skólann, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 5. apríl 2006 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 4. apríl 2006 þreytti A grunnpróf í einsöng við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn Einingar




Söngverk I Texti var skýr en talsvert skorti á hendingamótun og öndun var ekki í góðu samræmi við textann. Raddhljómur var loftkenndur og túlkun texta náði ekki inn í blæbrigði raddar. 8




Söngverk II Hér var hendingamótun skýrari, en mistök urðu í lokahendingu svo lagið hvarf! Þurft hefði meiri sýnileika á innihaldi texta og vandaðri framburð sérhljóða. Röddin var hljómlítil og loftkennd á efra sviði. 7




Söngverk III Hér lifnaði andlitið og túlkun varð innileg og hrífandi. Hendingamótun að mestu örugg en þéttleika hljóms var ábótavant. 12




Söngverk IV  Þetta var öruggt og skýrt sungið. Styrkleikabreytingar skorti mjög og túlkun einnig t.d. klukknahljómurinn. 9




Söngæfingar Talsverður taugaóstyrkur truflaði minni og inntónun. Legato söngur var nokkuð góður en hljómur ekki nægilega þéttur. 7




Val Hér var lífleg túlkun og fínn texti og raddhljómur mest streymandi. Hendingamótun og öndun var ónákvæm og ekki í samræmi við texta. 7




Óundirbúinn nótnalestur Byrjaði rétt en fór svo út úr tóntegund. Hrynmynd nokkuð rétt. 6




Heildarsvipur  Hér var of mikið óöryggi í tónlistarflutningi og framkomu. Röddina skortir þéttleika til að bera uppi hljóm. 2




Einkunn  Nemandi stóðst ekki próf 5,8




III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla er vísað til þess að 5. apríl 2006 hafi farið fram þrjú grunnpróf í söng í tónlistarskólanum T. Fyrsti nemandinn, A, hafi ekki staðist próf. Síðan segir í kærunni:

"Er eðlilegt að grunnpróf taki hátt upp í klukkustund eða 50 mínútur og að prófdómari taki sér töluvert langan tíma (örugglega 5 mínútur eða meira) milli laga til að skrifa umsögn um frammistöðu nemanda? Á ekki að vera eðlilegt flæði á milli laga þannig að nemandinn kólni ekki eða hreinlega stirðni af skelfingu á milli laga?

Í Aðalnámskrá tónlistarskóla á bls. 37 og í Aðalnámskrá tónlistarskóla, einsöngur, segir: Miða skal við að heildarpróftími á grunnprófi í hljóðfæraleik fari ekki fram yfir 30 mínútur.

A var í 50 mínútur inni í sínu grunnprófi sem að okkar áliti er nærri því tvöfaldur æskilegur próftími á þessu stigi. Að okkar áliti tók prófdómari sér allt of langan tíma á milli laga til að skrifa á meðan nemandinn beið eftir að mega hefja flutning á næsta verkefni. Seinni prófin tvö tóku ekki eins langan tíma en þó var óeðlilega löng bið fyrir nemendur á milli laga."

Þá kemur fram í kærunni að sami prófdómari hafi áður dæmt próf í tónlistarskólanum T og þá hafi prófdómarinn einnig tekið sér langan tíma milli laga til að skrifa umsagnir.

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 14. ágúst 2006, segir m.a.:

"Það er auðvitað hægt að skrifa - það sem þau ekki nefna - að í upphafi þessa prófs, urðu tvenns konar tafir; fyrst v. umræðna okkar kennara og píanóleikara, hvort ætti að færa prófið, því salurinn var svo kaldur! - en hinn möguleikinn var miklu minna herbergi, sem myndi líka kosta enn meiri tafir, og aðspurð sagði nemandinn þetta allt í lagi! - ef mig misminnir ekki þeim mun meir.

Hitt tók enn meiri tíma - nemandinn var ekki með neinar nótur fyrir prófdómarann - spenna myndaðist milli kennara og nemanda, þar sem sú fyrrnefnda sagðist hafa sagt henni að mæta með þær - spurði svo hvort ég þyrfti þær nokkuð - og ég sagðist alltaf vilja hafa þær, jafnvel þó ég þekkti lögin. Fyrir mig snýst það um að geta vísað til nótna/takts og þ.h. ef ég gagnrýni t.d. skort á styrkleikabreytingum eða hvað eina annað. Píanóleikarinn fór þá og ljósritaði og við biðum nokkra stund.

Svo er því til að svara, að ef próf gengur vel, er afar auðvelt að skrifa um það - ef hins vegar gengur miður, er oft erfitt að orða hlutina þannig að þeir séu þó uppbyggilegir og ekki of grimmilegir. Það er virkileg ástæða þess að ég var lengur en vanalega að skrifa um þetta próf, á það dreg ég enga dul. Ég man ekki lengur orðalag, en ég legg mig alltaf fram um að segja eitthvað jákvætt fyrst, áður en athugasemdir koma."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Kæruefni í máli þessu varðar framkvæmd á grunnprófi A í einsöng við tónlistarskólann T 5. apríl 2006. Nánar tiltekið finna kærendur að því að áfangaprófið hafi tekið of langan tíma og tiltaka sérstaklega í því sambandi að prófdómari hafi tekið sér of langan tíma til að semja umsagnir sínar um frammistöðu próftaka. Ekki kemur skýrt fram hvort kærendur telji að hinn langi próftími eða hlé á milli prófþátta hafi haft áhrif á frammistöðu próftakans, en ganga verður út frá því að kærendur séu þeirrar skoðunar. Ekki eru þó gerðar ákveðnar kröfur í kærunni af þessu tilefni. Samkvæmt þessu verður kæran skilin þannig að farið sé fram á að Prófanefnd geri athugasemdir um framkvæmd prófsins og eftir atvikum annarra prófa sem prófdómari hafi dæmt.

Í umsögn prófdómara til Prófanefndar vegna kærunnar er því haldið fram að umræddan dag hafi prófbyrjun dregist á langinn vegna atvika sem vörðuðu Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hins vegar kveðst prófdómari ekki draga dul á það að hún hafi verið lengur en venjulega að semja umsagnir í prófi A, enda sé vandasamt að skrifa um frammistöðu þegar próftaka gengur ekki vel í prófinu.

3.

Hinn 5. apríl 2006 dæmdi prófdómarinn P þrjú grunnpróf í einsöng í tónlistarskólanum T og skyldi fyrsta prófið hefjast kl. 17:00. Samkvæmt skráningu prófdómara á prófblað hófst próf A, sem var fyrst í röðinni, kl. 17:15 og lauk prófinu kl. 17:50. Samkvæmt þessu var próftími 35 mínútur. Annað prófið hófst kl. 17:50 og lauk kl. 18:25 og var próftími því einnig 35 mínútur. Þriðja prófið hófst kl. 18:40 og var próftími 30 mínútur.

Samkvæmt framansögðu ber ekki saman upplýsingum prófdómara og frásögn í kæru um lengd prófs A, en í kæru er staðhæft að próftakinn hafi verið 50 mínútur inni í prófinu. Ætla verður að þetta misræmi skýrist að mestu leyti af þeim atvikum sem prófdómari greinir frá í greinargerð sinni til Prófanefndar, þ.e. að vangaveltur hafi verið um hvort færa skyldi próftökuna í annað herbergi en þó aðallega að komið hefði í ljós í upphafi prófsins að nótur vantaði að þeim verkum sem skyldu flutt.

Rétt þykir að víkja nokkrum orðum að þeim drætti sem samkvæmt framansögðu virðist hafa orðið á því að eiginleg próftaka hæfist. Í starfsreglum og leiðbeiningum fyrir prófdómara, sem Prófanefnd gaf út vorið 2006, er bent á að prófdómari þurfi að koma tímanlega á prófstað fyrir fyrsta próf, m.a. til að ganga úr skugga um að aðstæður á prófstað séu fullnægjandi og að tími gefist til úrbóta sé þess þörf. Skal miða við að prófdómari sé mættur á prófstað ekki seinna en 15 mínútum fyrir fyrsta próf. Ekki liggur fyrir hvenær prófdómari mætti á prófstað í T hinn 5. apríl 2006, en miðað við fyrrgreinda leiðbeiningareglu hefði átt að vera nægur tími til að athuga hvort aðstæður væru viðunandi áður en prófið átti að byrja. Hitt atriðið - að nótur hafi vantað - er atriði sem eðlilegt var að kæmi ekki fram fyrr en í upphafi prófs. Það telst vera á ábyrgð viðkomandi kennara að ljósrit af öllum prófverkefnum séu tiltæk fyrir prófdómara, sbr. m.a. leiðbeiningar á vef Prófanefndar, og verður prófdómara ekki kennt um tafir á prófi sökum þess að nótur hafi vantað.

Samkvæmt fyrirmælum í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla skal miða við að heildarpróftími á grunnprófi fari ekki fram yfir 30 mínútur. Tilgangur þessarar reglu er fyrst og fremst að setja ákveðnar skorður þeim verkefnum sem kennari velur til flutnings á grunnprófi, en þó hefur verið litið svo á að prófdómari skuli einnig gæta að þessari tímaviðmiðun við framkvæmd prófs og er m.a. lögð á það áhersla í fyrrgreindum starfsreglum og leiðbeiningum fyrir prófdómara. Skýringar kunna þó að vera á því að próf taki lengri tíma en hér er mælt fyrir um, svo sem ef próftaki á í sérstökum erfiðleikum með eitt eða fleiri verkefni. Tekið skal fram að ekkert liggur fyrir um að neinu slíku hafi verið til að dreifa í prófi A. Þá verður ekki annað séð en að prófverkefnin hafi verið hæfilega löng. Rétt er að fram komi að samkvæmt reynslu undanfarinna ára taka söngpróf almennt lengri tíma en grunnpróf í öðrum greinum. Þótt ekki hafi farið fram á því nákvæm könnun virðist ekki óalgengt að söngpróf taki u.þ.b. 30 mínútur.

Miðað við fram komnar skýringar um tafir á upphafi prófsins og með samanburði við önnur grunnpróf í einsöng þennan dag svo og tímalengd grunnprófa í einsöng almennt, sbr. að framan, verður að draga í efa þá staðhæfingu kærenda að prófdómarinn hafi verið "örugglega 5 mínútur eða meira" að skrifa umsagnir sínar um prófverkefnin, svo sem segir í kæru. Hvað sem þessu líður og þrátt fyrir að próf A virðist ekki hafa verið lengra en önnur grunnpróf í einsöng sem fram fóru í tónlistarskólanum T sama dag - sé litið fram hjá þeim drætti sem varð á því að prófið hæfist - verður að telja það óumdeilt að prófdómari tók sér nokkurn tíma milli prófþátta til að skrifa umsagnir og miðað við frásögn í kæru og greinargerð prófdómara verður að ganga út frá því að sá tími hafi verið lengri í prófi A en í öðrum prófum þennan dag, en tekið skal fram að kærendur gera jafnframt almennar athugasemdir varðandi þann tíma sem umræddur prófdómari hafi tekið milli prófþátta til að skrifa umsagnir. Kemur þá til athugunar hvort ástæða sé til athugasemda eða annarra viðbragða Prófanefndar af þessum sökum.

4.

Taka ber undir það viðhorf í kæru að prófdómara beri sem stjórnanda áfangaprófs að gæta þess að framvinda prófs sé eðlileg og án ónauðsynlegra tafa. Þá ber prófdómara almennt að leggja sitt af mörkum til þess að nemanda líði sem best í prófinu. Óhjákvæmilegt er hins vegar að prófdómari hafi svigrúm til að orða umsögn sína um frammistöðu próftaka og að af þeirri ástæðu verði nokkurt hlé milli prófþátta. Þetta á raunar sérstaklega við í söngprófum, enda hefur það viðhorf komið fram í fræðslustarfi Prófanefndar að nemendur í söngprófum séu viðkvæmari gagnvart því að prófdómari skrifi niður minnisatriði meðan á flutningi stendur heldur en próftakar í hljóðfæraleik.

Prófanefnd hefur ekki sett ákveðnar reglur um þann tíma sem eðlilegt sé að prófdómari taki á milli prófþátta til að semja umsögn, en eftirfarandi leiðbeiningar hafa verið gefnar af hálfu nefndarinnar í þessum efnum:

"Prófdómari þarf að gæta þess að nemandi bíði ekki óeðlilega lengi á milli prófþátta. Ef nemandi byrjar á nýju verki áður en prófdómari er tilbúinn, skal leyfa honum að halda áfram óhindrað. Betra er að segja ekkert og halda áfram að skrifa, sér í lagi ef nemandinn virðist taugaóstyrkur. Ef þetta leiðir til þess að prófdómari þarf að flýta sér um of, kann að vera heppilegra að skrifa stutt uppkast að umsögn sem færa má í endanlegan búning að prófi loknu."

Eins og fram er komið hefur prófdómari gefið þá skýringu á hléum milli prófþátta í prófi A að flutningur hafi ekki gengið sem skyldi og því hafi verið vandasamt að orða umsagnir. Prófanefnd telur ekki ástæðu til að draga þessa skýringu í efa og rétt er að fram komi að nefndin telur að almennt hafi umsagnir verið vandaðar og vel unnar af hálfu prófdómarans P. Þess skal getið að prófdómari ritaði á prófblað sérstaka athugasemd til Prófanefndar varðandi valþátt prófsins, nánar tiltekið að valverkefni hefði ekki verið í samræmi við ákvæði námskrár, en í ljósi niðurstöðu prófsins var tónlistarskólann T ekki kynnt þessi athugasemd formlega. Hafi prófdómari skrifað umrædda athugasemd í prófinu, sem raunar er ekki fullvíst, er það til enn frekari skýringa á þeim tíma sem prófið tók.

Nauðsynlegt er að prófdómarar leitist við að haga störfum sínum þannig að próftakar þurfi ekki að bíða lengur en almennt gerist milli prófþátta, þótt vafaatriði eða erfiðar aðstæður komi upp í prófi, til dæmis með því að skrifa minnisatriði eða drög að umsögnum og ljúka frágangi þeirra að prófi loknu. Þykir kæra í máli þessu gefa tilefni til þess að Prófanefnd athugi að setja skýrari leiðbeiningar um framkvæmd áfangaprófa með tilliti til athugasemda sem fram koma í kæru og að þetta atriði verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í fræðslustarfi nefndarinnar fyrir prófdómara.

Þegar litið er til atvika í prófi A sérstaklega telur Prófanefnd hvorki augljóst né líklegt að hlé milli prófþátta í prófi A vegna ritunar umsagna hafi haft áhrif á niðurstöðu prófsins, m.a. þegar litið er til þess að inntak umsagna prófdómarans um einstök viðfangsefni er hið sama frá fyrsta verkefni til þess síðasta. Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem fyrr segir um ástæður fyrir töfum á því að prófið hæfist á ætluðum tíma, sem telja verður að hafi fyrst og fremst verið vegna atvika sem vörðuðu skólann, auk þess sem kæran lýtur öðrum þræði almennt að framgangi áfangaprófa undir stjórn viðkomandi prófdómara, sem réttara er að brugðist verði við í fræðslustarfi Prófanefndar, þykir ekki ástæða til að gera sérstakar athugasemdir vegna framkvæmdar prófs A.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A stendur óhaggað án athugasemda.