A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 8, 13. október 2006

Hinn 13. október 2006 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 1. júní 2006, hafa X, skólastjóri tónlistarskólans T, Y, deildarstjóri við skólann, og Z, píanókennari, kært framkvæmd áfangaprófs sem A þreytti hinn 30. mars 2006 við tónlistarskólann. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni með bréfi, dags. 6. september 2006.

II.

Hinn 30. mars 2006 þreytti A miðpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara, P, var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn  Einingar




Tónverk I Verk ekki flutt í heild, einungis fyrri hluti var spilaður þrisvar sinnum en ekki tókst að halda áfram. 3




Tónverk II Flutningur ónákvæmur, sérstaklega var talsvert um rangar nótur í vinstri. Pedalnotkun var mjög ábótavant, lítil tilfinning fyrir stíl tónskáldsins. 5




Tónverk III Tíð mistök í flutningi, pedalnotkun ábótavant. Góð tilfinning fyrir rubato. 6




Æfing  Gott tempo, ágætt legato í hægri, jafnleika og hraða var ábótavant í vinstri í sextándapörtum. 12




Tónstigar og hljómar Allnokkrar feilnótur, ágætt legato, jafnleika ábótavant í vinstri. 11




Val: Tears in heaven - útsetning Sannfærandi flutningur. Pedalnotkun ábótavant. 9




Óundirbúinn nótnalestur Oftast réttar nótur og púls, þó voru rangar nótur í vinstri í töktum 3 og 4. 8




Heildarsvipur  Undirbúningur prófsins virðist ófullnægjandi. 1




Einkunn  Nemandi stóðst ekki próf 5,5




Vitnisburðarblað A var gefið út hinn 30. maí 2006 og sent tónlistarskólanum T þann dag.

III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla er fundið að því að prófdómara í prófi A skyldi ekki hafa tekist að draga úr því stressi og álagi sem nemandinn hafi upplifað í prófinu. Það sé í hæsta máta óeðlilegt að prófið skuli hafa tekið jafn mikla dýfu og raun varð eftir jákvæða byrjun á æfingu og tónstigum. Telja kærendur að ábyrgð prófdómara á því að viðhalda jákvæðu andrúmslofti í prófi sé mikil, sérstaklega í ljósi þess að kennara og öðrum, sem kunni að vera viðstaddir próf, sé ekki heimilt að skipta sér af prófinu.

Í fyrsta verki af þremur, Prelúdíu nr. 9 í F-dúr, hafi nemandinn fipast í miðju verki. Hún hafi fengið að byrja aftur tvisvar sinnum í viðbót, en þá hafi prófdómari talið fullreynt með verkefnið. Í framhaldi af þessu hafi nemandanum fatast flugið og næstu tvö verk, eftir Beethoven og Schumann, hafi gengið mjög illa, enda hafi nemandinn verið niðurbrotinn.

Þá segir í kærunni:

"Í Nokkrum heilræðum til nemenda, sem Prófanefnd gefur út, segir m.a.: "Hafðu ekki áhyggjur þótt þú þurfir að byrja verk eða tónstiga oftar en einu sinni, þú fellur ekki bara vegna þess." Og ennfremur: "Þú verður trúlega taugaóstyrk, en reyndu að vera ekki of spennt, prófdómarinn hefur gengið í gegnum þetta alveg eins og þú." Það er í sjálfu sér þekkt, að nemendur finni til prófskrekks og upplifi stress á tónleikum, en að bæta því ofan á þá neikvæðu upplifun að fá ekki að ljúka sínu spili með reisn, burtséð frá einkunn, er á ábyrgð prófdómara. Við höfum sjaldan upplifað jafn þrúgandi andrúmsloft og það sem viðkomandi prófdómari hafi skapað og teljum það ekki samræmast markmiðum Prófanefndar."

Einnig er í kærunni gerð athugasemd við þann mikla drátt sem verið hafi á afgreiðslu Prófanefndar á vitnisburðarblaði vegna prófs A. Þessi dráttur samrýmist á engan hátt þeim vinnureglum sem Prófanefnd hafi sjálf sett sér og vilji fara eftir. Prófið hafi farið fram 23. mars, en skólinn fengið niðurstöðuna 30. maí. Hefði niðurstaðan legið fyrir fáum vikum eftir prófið, en ekki tveimur mánuðum síðar, hefði A getað endurtekið prófið með þeim nemendum sem tekið hefðu áfangapróf við skólann 22. maí.

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 6. september 2006, kemur fram að prófdómari telji sig hafa sýnt óvenju sanngjarna og faglega framgöngu í prófdæmingu miðprófs A. Kveðst prófdómari hafa starfað við prófdæmingu píanóprófa á öllum þremur stigum náms á undanförnum árum og geti fullyrt að aldrei hafi komið til viðlíka aðstæðna eins og komið hafi upp í umræddu prófi. Eðlilegt sé að nemendum sé gefinn kostur á að hefja flutning hvers prófverkefnis að nýju ef þurfi, enda sé oft erfitt að komast á flug við slíkar aðstæður sem áfangapróf séu. Þegar það gerist hins vegar, eins og í umræddu prófi, að próftaki spili þrisvar í röð sama prófverkefni frá upphafi og hætti ítrekað á sama stað í því verkefni, liggi fyrir að umrætt verk hafi ekki verið fullunnið til prófs. Í ljósi þess að Prófanefnd hafi ekki gefið út ákveðin viðmið í þessu sambandi og að prófdómarar vinni innan ákveðins tímaramma hafi prófdómari talið að þrjár tilraunir væru nóg.

Prófdómari getur þess varðandi flutning próftaka á Tónverki II (Sónatínu óp. 49 eftir Beethoven) að þær upplýsingar hafi komið fram á prófblaði að verkefnið yrði leikið utanbókar. Þegar próftaki hefði gert tvær árangurslausar tilraunir til að flytja verkefnið utanbókar hafi prófdómari boðið fram nótur sem próftaki þáði. Í þriðju tilraun hafi próftaki flutt verkið í heild með nótum, en eins og fram komi í umsögn prófdómara hafi Beethoven verið "fluttur af ónákvæmni, sérstaklega var talvert um rangar nótur í vinstri". Þarna hafi prófdómari lagt sitt af mörkum til að flutningur verksins gæti tekist í heild.

Síðan segir í bréfi prófdómara:

"Varðandi aðra prófþætti sem fylgdu í kjölfarið kemur í ljós að prófdómari hafði ekki látið umrædd atvik hafa áhrif þar að lútandi og gaf próftaka jákvæðar umsagnir þar sem kostur var á. Um verkefnið eftir Schumann stendur m.a. "Góð tilfinning fyrir Rubato" og um valþátt stendur m.a. "Sannfærandi flutningur".

Varðandi fullyrðingar sem koma fram í áðurnefndu bréfi um "að ábyrgð prófdómara á að viðhalda jákvæðu andrúmslofti sé mikil" þá vil ég gjarnan benda á að ábyrgð prófdómara er að viðhalda faglegum sjónarmiðum fyrst og fremst og framfylgja þeim af sanngirni. Einnig er ábyrgð kennara og skólastjóra mikil vegna undirbúnings nemenda til prófa, enda sé góður og markviss undirbúningur nemandans forsenda fyrir að honum líði vel í prófinu, jafnvel þótt misvel gangi frá einum prófþætti til annars. Reynsla mín er að þegar próftakar í öllum þremur stigum náms hafa átt í erfiðleikum með einn prófþátt af einhverjum orsökum hefur slíkt ekki komið niður á flutningi annarra prófþátta og er ástæðan fyrst og fremst vandaður heildstæður undirbúningur prófsins. Þegar prófið fellur um sjálft sig eins og gerðist þann 30.3. hjá A er augljóst frá faglegu sjónarmiði að undirbúningi prófsins var áfátt. Slíkt veldur próftaka auðvitað vanlíðan og óöryggi undir álagi. Því miður er ekkert sem prófdómari getur gert í því nema auðvitað koma fram af sanngirni og fagmennsku."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Kæran varðar framkvæmd á áfangaprófi (miðprófi) A í píanóleik við tónlistarskólann T og lýtur nánar tiltekið að framkvæmd prófþáttarins Tónverk I, sem var verkið Prelúdía nr. 9 í F-dúr eftir J.S. Bach. Lýsa kærendur atvikum með þeim hætti að nemandanum hafi fipast í miðju verki og fengið að byrja aftur tvisvar sinnum í viðbót, en þá hafi prófdómari tekið fyrir frekari tilraunir. Þetta hafi haft mikil áhrif á nemandann sem hafi leikið síðari verkefni undir getu. Telja kærendur að ákvörðun prófdómara um að heimila próftakanum ekki að ljúka umræddum prófþætti hafi haft áhrif á framkvæmd prófsins og árangur próftakans. Engar ákveðnar kröfur eru gerðar í kærunni af þessu tilefni, en helst verður kæran þó skilin þannig að þess sé krafist að Prófanefnd geri athugasemdir um framkvæmd prófsins. Þá er í kærunni fundið að því hversu seint niðurstaða prófsins hafi verið kynnt skólanum.

Í umsögn prófdómara til Prófanefndar vegna kærunnar kemur fram að próftaki hafi spilað umrætt prófverkefni þrisvar í röð og hætt ítrekað á sama stað. Vísar prófdómari til þess að ekki liggi fyrir viðmiðunarreglur Prófanefndar um hvernig skuli taka á aðstæðum eins og upp hafi komið í prófi A, en hins vegar vinni prófdómarar innan ákveðins tímaramma. Því hafi það verið mat prófdómara að þrjár tilraunir hafi verið nóg. Þá kemur fram að prófdómari telur atvik benda til þess að umrætt verk hafi ekki verið fullunnið til prófs.

3.

Kærendum og prófdómara ber saman um þau atvik sem þykja helst skipta máli varðandi úrlausn kæruefnisins. Fyrir liggur að próftaka fipaðist og hætti flutningi prófþáttarins Tónverk I í miðju verkinu. Próftaki fékk í tvígang að byrja aftur á verkinu en með sama árangri. Þá taldi prófdómari fullreynt og beindi próftakanum að næsta viðfangsefni. Ráðið verður af kærunni að Tónverk I hafi verið þriðja viðfangsefni próftaka í prófinu, þ.e. á eftir prófþáttunum Æfing og Tónstigar og hljómar. Samkvæmt prófblaði voru Tónverk I, Tónverk III og Æfing flutt utanbókar.

Í starfsreglum og leiðbeiningum, sem Prófanefnd hefur gefið út fyrir prófdómara, er fjallað sérstaklega um próftíma og æskileg viðbrögð prófdómara við óvæntum aðstæðum. Þar segir:

"Prófdómari skal reyna af fremsta megni að fara ekki fram úr tímaáætlun. Miðað er við að heildarpróftími á grunnprófi fari ekki fram úr 30 mínútum, próftími á miðprófi sé ekki lengri en 45 mínútur og framhaldspróf taki ekki lengri tíma en eina klukkustund.

Lendi próftaki í vandræðum í prófinu eða sé í miklu ójafnvægi er prófdómara heimilt að bregðast við eins og hann telur réttast miðað við aðstæður, jafnvel að gera hlé á prófi eða að halda áfram inn í næsta atriði og koma aftur að þeim þætti sem olli erfiðleikum. Hafa verður þó tímamörk prófsins í huga og ekki er ásættanlegt að próf fari langt fram yfir gefin tímamörk. Prófdómara er heimilt að stöðva próf sem fer út fyrir gefin tímamörk, ef ljóst er á þeirri stundu að nemandi muni ekki standast próf. Í slíku tilviki er prófdómara skylt að senda Prófanefnd skriflega greinargerð um viðkomandi próf.

Prófdómarar ættu ekki að taka hart á misheppnuðum byrjunum, né heldur þótt nemandi þurfi að gera aðra tilraun við viðkomandi prófþátt, sér í lagi ef um grunnpróf er að ræða. Ekki má þó dæma of vægt og nauðsynlegt er að prófdómari meti frammistöðu nemenda í samræmi við það sem fram kemur hér að framan um hlutverk og skyldur prófdómara."

Ekki verða gefnar einhlítar reglur um viðbrögð prófdómara við ýmsum óvæntum aðstæðum sem kunna að koma upp í prófi, m.a. ef próftaki lendir í vandræðum með prófverkefni, og verða prófdómarar að hafa svigrúm til að bregðast við í samræmi við aðstæður hverju sinni. Meginatriði í því sambandi er þó að sjálfsögðu að leita leiða til að prófið geti gengið eins eðlilega fram og frekast er kostur. Í tilvitnuðum kafla úr starfsreglum og leiðbeiningum Prófanefndar er nefnt að við tilteknar aðstæður geti prófdómari gert hlé á prófi eða gefið nemanda kost á að fresta prófverkefni, sem hann á í erfiðleikum með, þar til síðar í prófinu, enda sé ekki farið verulega út fyrir tímamörk prófs. Þess skal getið að samkvæmt prófreglum í aðalnámskrá tónlistarskóla ræður nemandi röð prófverkefna. Það breytir þó ekki því að eðlilegt er að prófdómari leiðbeini nemanda um að breyta út frá því sem fyrirfram hefur verið ákveðið ef þörf þykir vera á. Kann þetta að vera heppileg aðferð til að leiða fram rétta getu próftaka og betri en að í sömu atrennu sé reynt ítrekað við verkefnið. Önnur aðferð, sem grípa má til, er nefnd í bréfi prófdómara til Prófanefndar, dags. 6. september 2006, þ.e. að verk sé leikið með nótum þótt ráðgert hafi verið að flytja það utanbókar. Bent skal á að samkvæmt aðalnámskrá er hljóðfæranemendum ekki skylt að flytja nema eitt tónverk eða æfingu utanbókar. Í starfsreglum og leiðbeiningum Prófanefndar er tekið fram um þetta: "Að jafnaði er merkt fyrirfram á prófblað hvað nemandi hyggst leika utanbókar, en heimilt er nemanda að breyta því svo lengi sem fullnægt er lágmarkskröfum námskrár."

Af hálfu kærenda er því haldið fram að "jákvæð byrjun" hafi verið í prófi A í prófþáttunum Æfing og Tónstigar og hljómar og ber einkunnagjöf með sér að um viðunandi flutning hafi verið að ræða að því er þessa prófþætti varðar. Þegar þetta er virt og atvik málsins að öðru leyti, m.a. að próftakanum mistókst ítrekað að ljúka flutningi þriðja viðfangsefnisins, verður að telja að heppilegt hefði verið að prófdómari gripi til frekari úrræða en gert var til að létta undir með próftaka við flutninginn. Verður ekki séð að neitt hafi verið því til fyrirstöðu að prófdómari benti próftakanum á að taka sér stutt hlé og/eða að hún fengi að reyna við verkefnið síðar í prófinu, hugsanlega sem síðasta viðfangsefnið. Tekið skal fram að samkvæmt prófblaði var lengd prófs A 40 mínútur og verður því að telja að tími hafi verið til reiðu til að gefa stutt hlé og/eða til að reyna enn frekar við verkefnið. Þá kom jafnframt til greina að verkið yrði leikið með nótum, svo sem prófdómari gaf raunar kost á að því er varðar Tónverk II (Sónatína eftir Beethoven), en bent skal á að miðað við að æfingin hafi verið fyrsta eða annað viðfangsefnið á prófinu hafði próftakinn þá þegar fullnægt því skilyrði að flytja utanbókarverk. Rétt er að fram komi að algild regla verður ekki sett um það hversu oft próftaki má reyna við prófverkefni, heldur verður það að fara eftir atvikum hverju sinni, m.a. framvindu prófs að öðru leyti og þeim tíma sem til ráðstöfunar er.

Ekki verður staðhæft að aðgerðir af því tagi sem að framan greinir hefðu orðið til þess að próftaki næði betri árangri á prófinu en einkunnagjöf ber með sér. Allt að einu er óhjákvæmilegt að láta nemandann njóta vafans um þetta, svo sem framkvæmd prófsins var farið. Samkvæmt framansögðu þykir rétt að mæla fyrir um að próf A skuli endurtekið, en í þeirri niðurstöðu felst að próftakan 30. mars 2006 telst ógild. Samkvæmt skipulagsskrá Prófanefndar ber þá að endurtaka prófið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar. Tímasetning prófs skal ákveðin í samráði við tónlistarskólann T.

4.

Taka verður undir það með kærendum að afgreiðsla vitnisburðarblaðs hafi tekið of langan tíma af hálfu Prófanefndar og er rétt að fram komi að ekki var við prófdómara að sakast í þeim efnum. Prófanefnd vill hér með biðja próftaka og tónlistarskólann T afsökunar á þeim langa tíma sem afgreiðsla vitnisburðarblaðs tók. Tekið skal fram að A þreytti próf sitt 30. mars 2006 en ekki 23. mars 2006 eins og segir í kæru.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A í píanóleik skal endurtekið í heild.