Almennt um áfangapróf
Í aðalnámskrá tónlistarskóla (útg. 2000) segir að
við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms skuli
nemendur þreyta áfangapróf, annars vegar í hljóðfæraleik
og hins vegar í tónfræðagreinum. Ekki er nauðsynlegt að
nemendur ljúki báðum hlutum áfangaprófs á sama ári, en
nemandi getur ekki þreytt miðpróf fyrr en grunnprófi er að
fullu lokið. Sömuleiðis þarf að ljúka báðum hlutum miðprófs
áður en framhaldspróf er tekið. Frá þessum ákvæðum er
þó gerð sú undantekning í upphafi að þeim nemendum sem
nú teljast vera í mið- eða framhaldsnámi samkvæmt aðalnámskrá
tónlistarskóla er ekki skylt að þreyta áfangapróf í þeim
áfanga eða áföngum sem þegar eru að baki. Til að ljúka
framhaldsprófi þarf nemandi að halda sjálfstæða tónleika
innan eða utan skólans, auk þess að standast próf í hljóðfæraleik
og tónfræðagreinum.
Tilgangur áfangaprófa er fjölþættur. Prófunum er ætlað
að skera úr um hvort og að hve miklu leyti nemendur
uppfylla ákveðnar samræmdar kröfur um hæfni. Þeim er
einnig ætlað að afla upplýsinga um nám og kennslu á
vissum sviðum innan tónlistarskóla, meta frammistöðu
nemenda í samræmi við markmið og kröfur aðalnámskrár
og gera nemendum grein fyrir eigin frammistöðu í hverjum prófþætti.
Enn fremur eru prófin lokapróf úr viðkomandi áfanga innan
tónlistarskólans.
Síðast breytt 16. febrúar
2008
|